HAGI 

Naglabyssur, borvélar, höggfleygar og stingsagir eru nærtæk dæmi um algenga fylgihluti flestra iðnaðarmanna. Til þess að gæta fyllsta öryggis í meðferð slíkra tækja, eru þau gjarnan kyrfilega geymd í sérhönnuðum töskum með vörumerki viðkomandi framleiðsluaðila á áberandi stað. Eitt af þessum kunnuglegu merkjum er HILTI sem dregur nafn sitt af þýska vélaverkfræðingnum Martin Hilti sem árið 1941 stofnaði lítið verkstæði í eigin nafni í borginni Schaan í smáríkinu Liechtenstein. Þróun rekstrarins varð síðan á þann veg að HILTI umbreyttist í umsvifamikinn framleiðanda á fjölþættri flóru rafmagnsverkfæra og eru í dag með starfsemi í nánast öllum löndum.

Frá öndverðum sjöunda áratugnum hefur HILTI umboðið á Íslandi verið í höndum fjölskyldu Óskars G. Sigurðssonar. Í dag er fyrirtækið rekið undir nafninu HAGI ehf. og er aðsetur þess í rúmgóðu húsnæði að Stórhöfða 37 í Reykjavík. Þar er starfrækt verslun, vélaleiga og verkstæði. Hjá fyrirtækinu eru sjö fastráðnir starfsmenn.

Upphafið

Óskar G. Sigurðsson er fæddur í Reykjavík árið 1939 og ólst upp í Þingholtunum. Kona hans er Sóley Sigurjónsdóttir (1938) en þau giftu sig árið 1959. Börn þeirra eru Ragnhildur, Birna, Sigurjón, Óskar og Kristján Ingi og hafa þau öll unnið hjá fyrirtækinu í langan eða skamman tíma. Í dag er Kristján Ingi framkvæmdastjóri HAGI ehf.

Upphafið að skipulegum innflutningi og sölu á vörum frá HILTI má rekja til ársins 1962. Þetta sama ár stofnaði Óskar G. Sigurðsson umboðs- og heildverslun með stjúpföður sínum Birni G. Björnssyni (1905-1999) en hann átti þá að baki farsælan feril sem einn eigandi og forstjóri Sænsk-íslenska frystihússins við Arnarhól. Umboðs- og heildverslun Björns G. Björnssonar sf. var að Skólavörðustíg 3a. Starfsemin fólst í innflutningi, umpökkun og heildsölu á búsáhöldum og gjafavöru frá Japan.

Í júnímánuði árið 1963 birtist lítil auglýsing í Morgunblaðinu þess efnis að danska fyrirtækið Nordisk Trading óski eftir ,,umboðsmanni til að selja, fyrir prósentur, nokkra góða framleiðsluhluti fyrir tré- og byggingariðnað”. Feðgarnir slógu til og þar með var markað upphafið á hraðri útbreiðslu á rafmagnstækjum frá HILTI á Íslandi. Reksturinn varð snemma mjög blómlegur og skákaði brátt japönsku búsáhöldunum. Við upphaf ársins 1968 ákváðu þeir feðgar Óskar og Björn að einbeita sér eingöngu að HILTI og fluttu starfsemina í sérinnréttaðan bílskúrinn að heimili þeirra að Freyjugötu 43. Fyrstu innfluttu rafmagnstækin voru einfaldar borvélar ásamt nýmóðins naglabyssum sem í þá daga voru auglýst sem ,,hraðfestingatæki fyrir járn og steinsteypu” en helsta slagorð fyrirtækisins var þessi grípandi setning ,,Það hefst allt með HILTI”. Aukin umsvif starfseminnar á áttunda áratugnum áttu síðan eftir að brjóta sér leið út úr bílskúrnum og yfir í sérhannað atvinnuhúsnæði við Ármúlann, fyrst í húsi númer 23 og síðan í númer 26.

Framgangurinn

Við upphaf níunda áratugarins kom að því að Óskar G. Sigurðsson keypti hlut stjúpföður síns, Björns G. Björnssonar, og móður sinnar, Ragnhildar Kristjánsdóttur Björnsson, í umboðs- og heildversluninni. Við þessar eignabreytingar var nafni fyrirtækisins breytt yfir í Hilti hf. og starfsemi þess flutt í Skeifuna 3 en þar var aðsetrið um 12 ára skeið. Á þeim tíma rak fyrirtækið stærstu vélaleigu landsins.

Árið 1993 var fyrirtækið HAGI ehf. stofnað af feðgunum Óskari og Kristjáni. Í beinu framhaldi af því var húsnæði við Malarhöfða 2 tekið á leigu og síðar keypt.

Hágæða vörur – Traust þjónusta

Núverandi aðsetur HAGI ehf, að Stórhöfða 37, var tekið í notkun árið 2006. Þar er fyrirliggjandi mjög rúmgóður sýningarsalur, sem geymir þverskurðinn af fjölbreyttu vöruframboði HILTI enda er uppsetning hans samkvæmt staðli móðurfélagsins. Í salnum er til reiðu geysilegt úrval verkfæra sem eiga það sammerkt að vinna sig í gegnum steypu, stál eða timbur á einn eða annan hátt. Þetta eru t.d. naglabyssur, skrúfvélar, kjarnaborar, slípirokkar, stingsagir, demantssagir og höggfleygar og er þá fátt eitt nefnt. Einnig er um að ræða ýmsar tengdar vörur eins og almenn trésmíðaverkfæri, múrfestingar, röraupphengjur og byggingavinklar. Öll tæki frá HILTI eru áletruð með ,,Lifetime service”. Þetta þýðir að notandi á rétt á 1-2 ára fríu viðhaldi og lífstíðar verksmiðjuábyrgð auk þess sem hann þarf ekki að standa straum af fullum viðgerðarkostnaði ef alvarleg bilun á sér stað. Boðið er upp á frítt lán á sambærilegu tæki á meðan viðgerð stendur yfir. HAGI ehf. býður upp á, auk áðurnefndra vara frá HILTI, vörur fyrir brunaþéttingar, lasermælingar, iðnaðarryksugur, batterísborvélar o.s.frv.

Auk HILTI vörulínunnar hefur HAGI ehf. opnað 260m² vinnufata- og öryggisvöruverslun við hlið HILTI verslunarinnar. Þar er boðið upp á vinnuföt og öryggisvörur frá heimsþekktum framleiðendum á borð við Honeywell, Snickers Workwear, Hellberg, UVEX, Miller og margt fleira.